Kynning á verkefni

Commeniusarverkefni ACDC (Active Concern Dynamic Change) 2012-2014

Comeniusaráfangi er áfangi settur upp til skemmri tíma í FNV í kringum samstarfsverkefni sem styrkt er af Menntaáætlun Evrópusambandsins. Verkefnið er skólasamstarf fimm  Evrópuþjóða eða Íslands, Finnlands, Slóvakíu, Ungverjalands og Tyrklands. Nemendur frá þessum löndum heimsækja hverjir aðra í skólaheimsóknum  og dvelja á heimilum hvers annars yfir vikutíma í hverri ferð, þar sem þeir kynnast landi og þjóð.  Vatn er kjarnaviðfangsefni áfangans og er vatnið tengt við eitt meginviðfangsefni í hverri heimsókn. Vinna nemendur í kringum þetta viðfangsefni á önninni og afrakstur vinnu sinnar kynna þeir svo á ensku, en enska er opinbert tungumál verkefnisins. Markmið áfangans er að víkka menningarlegt sjónarhorn nemenda og ekki síður að þeir læri að starfa skipulega í hópum og vinna sameiginlega að lausn verkefna. Að þeir læri að útbúa kynningar og framsögu þeirra á erlendu tungumáli sem eflir sjálfstraust þeirra, auk þess sem þeir læra skipulögð og sjálfstæð vinnubrögð við upplýsingaöflun. Lögð er áhersla á krefjandi námsþætti sem leggja góðan grunn að áframhaldandi námi og starfi í framtíðinni.

Verkefnið byggir á fjórum skólaheimsóknum erlendis, en Finnland og Tyrkland hafa nú þegar verið heimsótt, en í september síðast liðinn hófst verkefnið á heimsókn til Íslands. Nýjum nemendum sem koma inn í áfangann verður skipt upp í tvær skólaheimsóknir, annarsvegar til Ungverjalands í september 2013 og hinsvegar til Slóvakíu í apríl 2014 og missa nemendur því viku úr skóla, þegar þeir fara erlendis, en verða að vinna verkefni sem kennarar láta þá fá.

Gestalandið gerir sér far um að sýna gestunum það markverðasta í nágrenni skólans, sérstaklega það sem tengist vatni.

Reglur áfangans

  • Nemendur geta ekki sótt áfangann sem P-nemar vegna árekstra við aðra áfanga eða vegna vinnu o.s.frv.
  • Leyfi forráðamanna verður að liggja fyrir ef nemendur hafa ekki náð 18 ára aldri.
  • Neysla áfengis og vímuefna er bönnuð í nemendaferðum áfangans.
  • Miðað er við að kennsla verði 4 kennslustundir í viku ef næg þáttaka fæst og fást fyrir einingar áfangann, jafnframt er gefin einkunn.

Kröfur til nemenda

  • Nemendur þurfa að hafa sæmilegt vald á enskri tungu og þarf hver nemandi að kynna hluta af verkefninu á ensku í þeim skólaheimsóknum sem farið verður í.
  • Þar sem verkefnið er hópverkefni er gerð mjög rík krafa um ákveðið vinnuframlag af hálfu hvers nemanda. Mikil áhersla verður því lögð á mætingu og vinnusemi í kennslustundum.
  • Hugsanlegt er að nemendur þurfi að taka þátt í einhverri fjáröflun í tengslum við verkefnið.
  • Heimsóknirnar byggjast á því að nemendur eru að kynna, skóla, bæ og land og svo sérstök verkefni um vatn sem fyrirfram eru ákveðin af stjórnendum verkefnisins.
  • Þessar ferðir eru ekki innkaupaferðir til útlanda, þótt stundum gefist kostur á því að fara í búðir, þurfa nemendur ekki að hafa mikið fé milli handanna.
  • Nemendur semja stutta lýsingu um sig, svokallað ,,fact file“ þar sem koma fram fyrirfram ákveðin atriði svo sem nafn, aldur, áhugamál og fl.